The Skeireins Translation
by Magnús H. Snædal (currently not available
otherwise)
Ia:
"Ekki er neinn sem skilur eða leitar guðs.
Allir sneru frá, saman urðu þeir gagnslausir",
og þá þegar féllu þeir undir dauðans
dóm. Vegna þessa kom sameiginlegur frelsari allra, að
hreinsa burt syndir allra - hvorki jafn né líkur voru réttlæti,
heldur var Hann sjálfur réttlæti - að Hann, með
því að fórna sér fyrir oss, "gjöf
og fórn guði", kæmi til leiðar
endurlausn heimsins. Þegar nú Jóhannes kom auga á
þetta, það áform sem fullgert skyldi
Ib:
verða af drottni, sagði hann með sanni: "Sjá,
þessi er lamb guðs er tekur burt synd heimsins."
Þótt Hann gæti einnig án mannlegs líkama,
eingöngu með guðlegu valdi, leyst alla úr áþján
djöfulsins, var Honum samt ljóst að með slíku
valdi máttar síns væri sýnd nauðung og áforms
réttlætisins ekki framar gætt, heldur kæmi Hann
til leiðar hjálpræði manna með nauðung. Því
þar eð djöfullinn hafði frá upphafi ekki neytt
heldur tælt
Ic:
manninn og með lygi hvatt hann til þess að ganga í
berhögg við boðorðið, væri það ekki
við hæfi ef drottinn, sem kæmi í guðlegum mætti,
bæði frelsaði hann með valdi og sneri honum til guðhræðslu
með nauðung. Því virtist Hann þá ekki
í þvingun réttlætisins ganga í berhögg
við það áfrom sem fyrr var ákveðið
þegar frá upphafi? Nú var meira við hæfi
að þeir sem af eigin vilja höfðu hlýtt djöflinum,
að ganga í berhögg við boðorð guðs, þeir
yrðu aftur af eigin vilja samþykkir kenningu frelsarans
Id:
og að fyrirlíta illsku þess sem áður tældi
þá. En til þess að innleiða þekkingu á
sannleikanum til endurreisnar hegðunar í guði, tók
Hann nú vegna þessa einnig á sig líkama manns,
að Hann yrði oss kennari réttlætis eftir guði;
því þannig varð Hann að breyta eftir skilningi
sínum, bæði að laða menn aftur með orðum
og verkum og verða boðberi hegðunar eftir fagnaðarerindinu.
En vegna þess nú að þvingun lögmálsins,
ekki eingöngu afturhvarf ...
IIa:
... verður [Nikódemus í] trú sinni, þorir
nú fyrir Hann, nefnilega á stund þjáningarinnar,
að grafa lík Hans eftir þjáninguna opinberlega
með Jósefi og gerði ljóst að hann hvarf ekki
frá þrátt fyrir reiðilestur fyrirmannanna. Einnig
vegna þess að frelsarinn, í þann mund er Hann var
að byrja, benti á veginn sem hið efra liggur til konungsríkis
guðs og sagði:" Sannlega, sannlega
segi ég þér: hver sá sem ekki er fæddur
að ofan, getur ekki litið konungsríki guðs."
'Að ofan'
IIb:
tjáði þá hina heilögu og himnesku fæðingu,
aðra sem gangast skyldi undir með þvotti. Einmitt þetta
skildi Nikódemus ekki þá, vegna þess að hann
heyrði það þá fyrst frá meistaranum.
Vegna þessa sagði hann: "Hvernig
er manni mögulegt að fæðast þegar hann er gamall?
Hvort getur hann farið aftur í kvið móður sinnar
og fæðst?" Því þar
eð hann var enn vankunnandi og ekki kunnugur venjunni, og hugsaði
um hina líkamlegu fæðingu úr kviði, komu vöflur
á hann. Vegna þessa sagði hann: "
Hvernig
IIc:
er manni mögulegt þegar hann er gamall að fæðast?
Hvort getur hann farið aftur í kvið móður sinnar
og fæðst?" En frelsarinn, sem sá
komandi dómgreind hans og að hann átti að dafna í
trúnni, útskýrði fyrir honum eins og þeim
sem er ennþá vankunnandi og sagði: "Sannlega,
sannlega segi ég þér: hver sá sem ekki er fæddur
af vatni og anda, getur ekki komist inn í konungsríki guðs.
"
Því það var nauðsyn og í samræmi
við eðlið að sækja
IId:
skírnaráformið til mannsins nefnilega, sem er samsettur
úr ólíkum eigindum, nefnilega sál og líkama,
og annað þessara er sýnilegt en hitt andlegt. Því
tiltók Hann hæfilega í framhaldi af þessu tvo
hluti að auki, hluti sem hæfa hvoru um sig samkvæmt skírnaráforminu,
nefnilega bæði hið sýnilega vatn og hinn skynjanlega
anda, að nefnilega hið séða ...
IIIa:
"... mörg
voru þar; og þar komu þeir og voru skírðir.
Jóhannes hafði ekki ennþá verið settur í
fangelsi." En með því að
segja einmitt þetta sýndi guðspjallamaðurinn að
áformið um hann var nærri enda með vélum Heródesar.
En fyrir þetta, meðan báðir skírðu og hvor
hélt fram sinni skírn, deildu sín á milli sumir
sem ekki vissu hvor skyldi meiri. "En síðan
kom upp deila
IIIb:
af
hálfu lærisveina Jóhannesar við gyðinga um
hreinsun", vegna þess að þá
þegar var einnig siður líkams hreinsana umbreyttur og
hreinleiki eftir guði var fyrirskipaður. Þeir skyldu ekki
framar kappkosta að nota gyðinglegar dreypingar og daglegar lauganir
heldur hlusta á Jóhannes, þennan fyrirrennara fagnaðarerindisins.
Og þá var einnig drottinn að mæla með hinni
andlegu skírn svo deilan um hreinsun hófst réttilega.
Því lögmálið fyrirskipaði vegna einnar
misgerðar sem þeir frömdu
IIIc:
óvísvitandi, að ösku af kvígu brenndri utan
búðanna skyldu þeir eftir það varpa í
hreint vatn og sáldra yfir ísópi og rauðri ull,
eins og hæfði þeim sem voru handan við sjálfráðan
ásetning. En Jóhannes boðaði iðrunarskírn
og hét fyrirgefningu misgerða þeim sem einfaldlega bættu
ráð sitt. En [skírn] drottins, ásamt syndafyrirgefningu
og gjöf heilags anda, veitti þeim einnig að þeir yrðu
synir konungsríkisins.
IIId:
Svo að skírn Jóhannesar liggur á milli hinna tveggja;
hún tekur nefnilega fram hreinsun lögmálsins, en er
miklu minni en skírn fagnaðarerindisins. Vegna þessa kennir
hann oss ljóslega og segir: "Vissulega
skíri ég yður í vatni, en sá sem á
eftir mér kemur er máttugri mér og ég er þess
ekki verður að ég krjúpandi leysi skóþveng
hans. En hann skírir yður í heilögum anda."
Nú eftir áforminu ...
IVa:
"Þessi gleði mín er nú
fullkomnuð. Hann á að vaxa en ég að minnka",
af því að nú höfðu lærisveinar hans
deilt við gyðinga um hreinsun og sagt við hann: "Rabbí,
sá sem var með þér hinumegin Jórdanar, hann
sem þú vitnaðir um, sjá, hann skírir og
allir koma til hans." Þeir voru enn
vankunnandi um það sem varðaði frelsarann, og þess
vegna kennir hann þeim og segir: "Hann
á að vaxa en ég að minnka."
En þó var áformið um hann gagnlegt, nefnilega í
stuttan
IVb:
tíma, og með því að undirbúa sálir
hinna skírðu leyfði það boðun fagnaðarerindisins.
En kenning drottins sem hófst úr Júdeu breiddist einnig
til allrar heimsbyggðarinnar, dafnaði hvarvetna allt til þessa,
og jókst og dró alla menn til þekkingar á guði.
Vegna þessa, og að mikilleiki drottins dýrðar var
sannarlega skír, kunngerði hann og sagði: "Sá
sem að ofan kemur er yfir öllum."
Ekki að hann kunngerði ástæðulausu að Hann
væri yfir, heldur nefndi einnig svo mikinn
IVc:
mátt mikilleika Hans, sagði Hann bæði himneskan og
kominn að ofan en sig jarðneskan og talandi af jörðu vegna
þess að hann var maður að eðli. Hvort sem hann var
heilagur eða spámaður og vitnaði um réttlætið,
var hann samt af jörðu og talaði af andríku eðli.
En "sá sem er kominn af himni",
jafnvel þótt Hann virtist vera í holdi, samt "er
hann yfir öllum; og það sem hann sá og heyrði,
það vitnar Hann og enginn tekur við vitnisburði Hans".
Og enda þótt Hann kæmi af
IVd:
himni á jörðu vegna áforms um mennina, var Hann
samt hvorki að heldur jarðlegur né talandi af jörðu,
heldur að greina frá himneskum leyndardómum sem hann
sá og heyrði hjá föðurnum. Þetta var nú
nefnt af Jóhannesi, ekki til þess eingöngu að hann
kunngerði mikilleika drottins, heldur til þess að fordæma
og víta hina óguðlegu þrætu Sabellíusar
og Markellusar sem voguðu sér að segja að faðir
og sonur væru einn. En annar prestur ...
Va:
... til heiðurs föðurnum, væntir Hann eins boðs
að hverju verki. En nefnilega að þessi var elskandi en hinn
sá elskaði, annar sýnandi en hinn líkjandi eftir
gerðum hans; einmitt þetta nefndi Hann þá vitandi
um villu þeirra sem eftir kæmu, að þeir lærðu
af þessu að kannast við hinar tvær persónur
föður og sonar, og væru nú samsaga. Í framhaldi
af þessu notaði Hann skýr
Vb:
orð og sagði: "Því eins
og faðirinn upp vekur dauða og lífgar þá, þannig
lífgar og sonurinn þá sem hann vill."
Er Hann hét því að Hann af eigin vilja og eigin
mætti líkti eftir þeim sem áður lífgaði
dauða, hastaði Hann á og vítti þrætugirni
hinna vantrúuðu. "Enda dæmir
ekki faðirinn nokkurn, heldur fól syninum allan dóm."
En væri Hann nú einn og hinn sami samkvæmt ummælum
Sabellíusar, táknaður með ólíkum nöfnum,
hvernig gæti hinn sami dæmt
Vc:
og ekki dæmt? Því ekki eingöngu skipti á
nöfnum tákna mun persónanna tveggja, heldur miklu fremur
merki verkanna, að annar dæmir nefnilega engan heldur felur syninum
vald dómsins. Og Hann tekur við þessum heiðri af föðurnum
og framkvæmir allan dóm eftir vilja hans, "til
þess að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra
föðurinn". Nú skulum vér
allir, að fengnum slíkum og svo skírum ummælum,
veita hinum óborna guði heiður
Vd:
og viðurkenna að eingetinn sonur guðs sé guð. Af
því að vér trúum sýnum vér
nú hvorum heiður eftir verðleikum, því hið
sagða "til þess að allir heiðri
soninn eins og þeir heiðra föðurinn",
kennir oss að sýna líkan en ekki jafnan heiður. Og
sjálfur frelsarinn, er hann bað fyrir lærisveinunum, sagði
við föðurinn, "að þú
elskir þá einsog þú elskar mig".
Með þessu bendir hann ekki á jafnan kærleika heldur
líkan. Með þeim sama hætti ...
VIa:
... -andi varð af nauðsyn ókunnari boðskapur hans eins
og hann sjálfur segir: "Hann á
að vaxa en ég að minka." Nú
vegna þess að skamma stund virtust þeir trúa, að
hlusta á Jóhannes, en ekki löngu síðar fólu
þeir gleymskunni það sem hann varðaði, af því
minnir Hann þá dável á og segir: "Hann
var brennandi og skínandi lampi en þér vilduð um
stund gleðjast í ljósi hans. En þó hef ég
vitnisburð meiri Jóhannesi,
VIb:því
þau verk sem faðirinn fól mér, til þess að
ég geri þau, þau verk sem ég geri vitna um mig,
að faðirinn sendi mig." Því
hann, sem vitnaði með mannlegum orðum, virtist efast - þótt
hann væri sannur hinum vankunnandi gat hann það - en vitnisburður
föðurins fyrir mín verk, handan alls mannlegs boðskapar
Jóhannesar, getur tryggt yður óvefengjanlega þekkingu.
Því sérhverju orði sem af mönnum er numið
má breyta í annað, en þessi heilögu verk,
VIc:
sem eru óvefengd, gera ljóst auðkenni gerandans og tákna
ljóslega að Hann var sendur frá föðurnum af
himni. Vegna þessa segir Hann: "Og faðirinn
sem sendi mig, hann vitnar um mig." En samt
varð vitnisburður föðurins um hann ólíkur
og á ólíkum tímum, að hluta til fyrir orð
spámanna, en að hluta til fyrir rödd af himni, en að
hluta til fyrir tákn. En vegna þess, að þessu svo
orðnu, að hjarta hinna vantrúuðu varð
VId:
harðara, þess vegna bætti hann réttilega við
og sagði: "Hvorki heyrðuð þér
nokkurn tíma rödd hans né sáuð ásýnd
hans, og ekki hafið þér orð hans varanlegt í
yður, því að þeim sem hann sendi, honum trúið
þér ekki." En samt, hvað
varðar hina eftirlátu, skal því ekki neitað
að sumir heyrðu vissulega rödd Hans en sumir sáu ásýnd
Hans. "Sælir",
sagði Hann því, "eru hinir
hjartahreinu, því þeir skulu sjá guð."
Og þegar eftir það eins og veð um ...
VIIa:
... enginn, sem þekkti mátt drottins og gerði sér
ljóst vald hans. Og ekki er hann sá eini, heldur einnig Andrés,
sem sagði, "Hér er drengur einn
sem hefur fimm byggbrauð og tvo fiska",
lætur ásannast líkt og Filippus, að hann gerði
sér alls ekki ljósan mikilleikann né áttaði
sig á verðleikum meistarans, með því sem hann
bætti við er hann sagði: "En
hvað er það handa svo mörgum?"
En drottinn, sem tók mið af barnaskap þeirra,
VIIb:
sagði: "Látið mennina setjast
niður. En þeir, þar eð mikið gras var á
staðnum, létu fjöldann setjast niður"
- fimm þúsundir karla fyrir utan konur og börn - eins
og þeir settust niður að miklum kvöldverði, en þar
var ekkert annað umfram brauðin fimm og fiskana tvo sem Hann tók,
gjörði þakkir og blessaði. Og er Hann saddi þá
með svo mikilli næringu, gaf Hann þeim ekki eingöngu
fullnægju þarfarinnar,
VIIc:
heldur miklu meira: "Eftir að mannfjöldinn
hafði matast fundust tólf karfir fullar af brauðunum sem
af gengu. Sömuleiðis þá tóku þeir einnig
við af fiskunum svo miklu sem þeir vildu."
En ekki sýndi Hann þá gnótt máttar síns
á brauðunum einum, heldur einnig á fiskunum, því
Hann lét þá verða svo mikið sem Hann síðan
tíndi saman af þeim, svo að Hann lét sérhvern
taka við eins miklu og hann vildi, og með þessari gnótt
lét Hann ekki verða skort á neinu. En
VIId:
þó fullnægði Hann miklu meir með þessu
lærisveinunum og minnti aðra á að gefa því
gaum að Hann var hinn sami sem í eyðimörkinni fæddi
feður þeirra í 40 ár. "Og
þá er þeir voru mettir sagði hann við lærisveina
sína: Tínið saman molana sem af gengu að ekkert ónýtist.
Og þá tíndu þeir saman og fylltu tólf
karfir af brotum byggbrauðanna fimm og fiskanna tveggja, sem gengu
af hjá þeim ..."
VIIIa:
"... enginn
lagði á Hann hendur", þar
eð heilagur máttur Hans dreifði enn ósýnilega
illsku þeirra og leyfði ekki að taka sig fyrir tímann.
"Þjónarnir komu þá
aftur til æðstu prestanna og Faríseanna, og þar
sögðu þeir við þá: Hví komuð
þér ekki með Hann? En þjónarnir svöruðu
og sögðu, að aldrei talaði nokkur maður eins og þessi
maður." En þetta
VIIIb:
svar varð að álösun, ennfrekar raunar, að fordæmingu
vandrúar hinna. Því þeir svöruðu hinum
sem atyrtu þá, vegna þess að þeir komu ekki
með Hann, án þess að hræðast illsku hinna
sem atyrtu þá, heldur undruðust meira kenningu drottins:
meðal alls almennings viðurkenndu þeir opinskátt að
hún væri fremri. En hinir þoldu ekki dirfsku þeirra
vegna illsku sinnar, svöruðu þeim með reiði og sögðu.
"Hvort eruð þér
VIIIc:
einnig
afvegaleiddir? Sjá, hefur nokkur höfðingjanna trúað
Honum eða Faríseanna? En þessi múgur, sem ekki
þekkir lögmálið, er bölvaður."
En þetta sögðu þeir með biturð reiðinnar.
Í þessu eru þeir staðnir að ósannindum
- að enginn höfðingjanna eða Faríseanna tryði
Honum - því Nikódemus, sem eftir áformi guðs
kom til hans að nóttu, tók einnig af dirfsku málstað
sannleikans, og sagði við þá: "Hvort
dæmir lögmál vort mann _"
o.s.frv.
VIIId:
Þegar þeir sögðu að "enginn
höfðingjanna og Faríseanna tryði",
þrefuðu þeir án þess að íhuga að
hann var nefnilega Farísei og ráðsherra gyðinga.
Og hann einn höfðingjanna, var nefndur til úr hópi
hinna 'bölvuðu'
sem trúði drottni, talaði fyrir Hann í álösun
illsku þeirra. En þeir sem þoldu ekki ávíturnar
svöruðu og sögðu: "Hvort
ert þú einnig frá Galíleu? Rannsakaðu og
sjáðu, að ..."
back